FAGGILDING

Faggilding er formleg viðurkenning þar til bærs stjórnvalds á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat. Samræmismat er mat á því hvort vara, ferli, kerfi eða aðili uppfylli kröfur.

Faggilding hefur verið starfrækt á Íslandi frá árinu 1992. samkvæmt lögum um vog, mál og faggildingu. Sérstök lög um faggildingu o.fl. tóku gildi í maí 2006. Lögin tryggja að hægt er að starfrækja faggildingu á Íslandi í samræmi við alþjóðlega staðla og reglur.

Faggilding var upphaflega starfrækt á Löggildingarstofu en færðist yfir til Neytendastofu til skamms tíma. Frá apríl 2006 hefur faggilding fengið endanlegt aðsetur og heyrir nú undir Einkaleyfastofunna sem faglega sjálfstætt starfandi svið.

Faggilding er mat á hæfni til að vinna tiltekin verk svo sem að prófa eiginleika efna, skoða ástand tækja og verksmiðja eða votta stjórnunarkerfi. Faggilding má ekki vera háð samkeppni vegna þess hlutverks hennar að tryggja að ekki sé vikið frá stöðlum vegna samkeppni milli aðila sem láta í té vörur og þjónustu.

Faggilding er starfrækt alþjóðlega og miðar að því að vara sem er prófuð, skoðuð eða vottuð í einu landi af faggildum aðila sé viðurkennd í öllum löndum þar sem faggilding er starfrækt. Í Evrópu eru starfandi faggildingarstofur í meira en 40 löndum.

Faggildingu má skipta í tvo hópa, lögbundna og sjálfvalda. Lögbundin á við um skoðunar-, vottunar-, eða prófunarstofur sem starfa á sviðum þar sem gerð er ytri krafa um faggildingu. Ytri kröfur geta komið frá ríkjum og mismunandi mörkuðum. Samræmismatsstofur sem starfa fyrir hönd íslenska ríkisins þurfa lögum samkvæmt að vera faggiltar. Samræmismatsstofur sem ekki þurfa lögum samkvæmt að vera faggiltar geta valið að vera faggiltar til að öðlast meiri trúverðuleika, þar sem það að vera faggiltur þýðir að viðkomandi aðili er hæfur til að vinna tiltekin verkefni.

Faggildingarstarfsemi byggir á alþjóðlegu staðlaröðinni ÍST EN ISO/IEC 17020/2012.